Þórsarar með sigur gegn Kórdrengjum

Þórsari leiksins, Jonn Rói Tórfinsson, skoraði átta mörk og fær hér gjafabréf frá Sprettinum afhent …
Þórsari leiksins, Jonn Rói Tórfinsson, skoraði átta mörk og fær hér gjafabréf frá Sprettinum afhent að leik loknum. Myndir: HarIngo

Þórsarar sigruðu Kórdrengi með níu marka mun í Grill 66 deildinni í handbolta í dag. Stigin eru orðin 12, en liðið er áfram í 9. sæti deildarinnar.

Markverðir liðanna voru í aðalhlutverkum í fyrri hálfleiknum í dag og markvörður Kórdrengja, Birkir Fannar Bragason, hleypti engu inn fyrstu mínúturnar, ekki fyrr en gestirnir höfðu skorað þrjú mörg gegn engu marki Þórsara. Okkar menn gerðu þá fjögur mörk í röð og létu forystuna ekki af hendi eftir það. Liðunum gekk brösuglega að skora í upphafi og á fyrstu tíu mínútunum var Birkir Fannar með 70% markvörslu, eða sjö skot, og Kristján Páll Steinsson í marki Þórs með fimm varin skot, eða 62,5%. Á fyrsta fjórðungi vörðu þeir báðir átta skot. Kristján Páll spilaði aðeins fyrri hálfleikinn, en þeir Arnar Þór Fylkisson og Tristan Ylur Guðjónsson skiptu með sér þeim seinni. Markverðir Kórdrengja vörðu mun færri skot í seinni hálfleiknum en þeim fyrri.

Það var reyndar eins og allur kraftur Kórdrengja hefði farið í upphafsmínúturnar og þessa þriggja marka forystu sem þeir náðu. Þórsarar yfirtóku leikinn og juku forystuna smátt og smátt út fyrri hálfleikinn, staðan 13-7 í leikhléi. Í seinni hálfleik var eins og allur vindur væri úr gestunum og Þórsarar náðu mest 14 marka forystu, 26-12. Leikurinn leystist síðan dálítið upp á lokakaflanum og Kórdrengir minnkuðu forskotið niður í níu mörk, lokatölurnar 31-22.

Þetta var sjötti sigur Þórsara í deildinni, en Kórdrengir sitja enn á botninum með tvö stig. Jonn Rói Tórfinsson og Arnór Þorri Þorsteinsson skoruðu mest fyrir Þórsara í dag, átta mörk hvor. Jonn Rói varð fyrir valinu sem Þórsari leiksins og hlaut að launum gjafabréf frá Sprettinum. Kristján Páll Steinsson var öflugur í marki Þórs í fyrri hálfleiknum, varði þá 13 skot og skoraði mark.

Tölfræðin

Þór
Mörk: Arnór Þorri Þorsteinsson 8, Jonn Rói Tórfinnson 8, Jón Ólafur Þorsteinsson 4, Halldór Yngvi Jónsson 2, Jóhann Geir Sævarsson 2, Andri Snær Jóhannsson 2, Aron Hólm Kristjánsson 2, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Kristján Páll Steinsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 13 (65%), Arnar Þór Fylkisson 4.
Brottvísanir: 14 mínútur

Kórdrengir
Mörk: Egidijus Mikalonis 8, Tómas Helgi Wehmeier 5, Hrannar Máni Gestsson 3, Gunnar Ingi Eiríksson 2, Arne Karl Wehmeier 1, Bjarki Björgvinsson 1, Guðmundur Rögnvaldsson 1, Logi Aronsson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 10, Viktor Bjarki Ómarsson 2.
Brottvísanir: 10 mínútur

Tölfræði leiksins á Hbstatz.
Grill 66 deildin á hsi.is (leikur ekki kominn inn þegar þetta er birt).

Næsti leikur Þórs er strax á þriðjudag, 21. mars, en þá koma Víkingar í heimsókn í Höllina. Leikurinn hefst kl. 18.

Hér er um frestaðan leik að ræða, en hann átti að fara fram 2. mars og var þá frestað vegna andláts Ágústs Lárussonar. Leikmenn og stuðningsmenn minntust Ágústs með mínútu þögn fyrir leikinn í dag, ásamt því að leika með sorgarbönd. Ágúst, eða Gústi eins og hann var jafnan kallaður, spilaði með öllum flokkum Þórs í handbolta. EFtir að handboltaiðkun hans lauk starfaði hann sem þjálfari yngri flokka Þórs við góðan orðstír. Ágúst sat einnig í stjórn Akureyrar handboltafélags um tíma og nú síðast sem gjaldkeri stjórnar handknattleiksdeildar Þórs til síðustu áramóta. 


Trommustuðningssveitin var öflug í dag, eins og á öllum heimaleikjum Þórs.


Leikhlé.