Þórsarar þægilega áfram í Mjólkurbikarnum

Þórsarar verða í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins í fótbolta.

Segja má að tímabil strákanna hafi hafist með formlegum hætti í dag þegar liðið tók á móti C-deildarliði KF úr Fjallabyggð í fyrstu umferð bikarsins. Leikið var í Boganum og var snemma ljóst í hvað stefndi.

Alexander Már Þorláksson opnaði markareikninginn á 38.mínútu og nokkrum síðar tvöfaldaði Marc Rochester Sorensen forystuna eftir góða sókn og staðan í leikhléi 2-0. Þórsarar fengu aragrúa dauðafæra í síðari háfleik og lauk leiknum með 6-0 sigri þar sem Marc gerði sitt annað mark og Valdimar Daði Sævarsson, Bjarni Guðjón Brynjólfsson og Aron Ingi Magnússon gerðu sitt markið hver. Eins og tölurnar gefa til kynna var mikill getumunur á liðunum og sigur Þórs síst of stór.

Smelltu hér til að skoða leikskýrsluna úr leiknum.

Þrír leikmenn sem koma úr barna- og unglingastarfi Þórs léku með KF í dag; þeir Marinó Snær Birgisson, Rúnar Freyr Egilsson og Sævar Þór Fylkisson og voru þeir með sprækari leikmönnum gestanna.

Næst á dagskrá hjá okkar mönnum eru 32-liða úrslit í Mjólkurbikarnum sem leikin verða á dögunum 19.-21.apríl næstkomandi.