Þrettán stiga tap gegn Njarðvík

Þórsliðið fyrir leik í gær. Aftari röð frá vinstri: Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Hlynur Freyr …
Þórsliðið fyrir leik í gær. Aftari röð frá vinstri: Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Hlynur Freyr Einarsson þjálfari, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, Heiða Hlín Björnsdóttir, Maddie Sutton, Kristín María Snorradóttir, Lore Devos, Valborg Elva Bragadóttir, Emma Karólína Snæbjarnardóttir og Katrín Eva Óladóttir.
Fremri röð frá vinstri: Kasper Nói Stefánsson, Vaka Bergrún Jónsdóttir, Rebekka Hólm Halldórsdóttir, Karen Lind Helgadóttir, Hrefna Ottósdóttir, Jovanka Ljubetic og Eva Wium Elíasdóttir.
Mynd: Páll Jóhannesson
- - -

Njarðvíkingar höfðu betur gegn Þór þegar liðin mættust í 5. umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í gær. Þrettán stigum munaði þegar upp var staðið.

Þórsliðið byrjaði ágætlega og fyrstu stig gestanna komu ekki fyrr en að liðnum tæpum þremur mínútum. Njarðvíkingar náðu forystunni um miðjan fyrsta leikhluta og héldu henni raunar út allan leikinn, en klaufaskapur í lok fyrri hálfleiks kom í veg fyrir að Þórsarar næðu forystunni aftur fyrir leikhlé. Njarðvíkingar náðu góðum spretti í þriðja leikhluta, unnu hann með 11 stigum og héldu 10-16 stiga forskoti út leikinn. Þórsarar unnu fjórða leikhlutann 19-17, en niðurstaðan varð 13 stiga sigur gestanna.

Þór - Njarðvík (13-17) (16-16) 29-33 (17-28) (19-17) 65-78

Leikurinn var nokkuð jafn að mörgu leyti þegar litið er á hina ýmsu tölfræðiþætti. Skotnýting Þórsliðsins var betri úr tveggja stiga skotum, skotnýting gestanna betri úr þriggja stiga skotum og vítum. Liðin tóku álíka mörg fráköst, en Þórsliðið tapaði boltanum 29 sinnum á móti 20 skiptum Njarðvíkinga. Munurinn lá kannski helst í því síðastnefnda enda skoruðu Njarðvíkingar 22 stig á móti 11 stigum Þórs úr sóknum eftir tapaða bolta.

Fyrirfram mátti búast við skemmtilegri frákastabaráttu því þarna mættust tvær þær hæstu á listanum í deildinni yfir tekin fráköst það sem af er leiktíðinni, Maddie Sutton hjá Þór og hin danska Emilie Hesseldal hjá Njarðvík. Þegar upp var staðið munaði einu frákasti, Maddie með 18 og Hesseldal 19.

Smellið á myndina hér að neðan til að skoða ítarlega tölfræði úr leiknum.

Myndaalbúm - Páll Jóhnnesson


Maddie Sutton var af sérfræðingum valin Þórsari leiksins og fékk að launum gjafabréf á AK-inn.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór
Lore Devos 21/8/3, Eva Wium Elíasdóttir 14/1/5, Maddie Sutton 13/18/1, Jovanka Ljubetic 8/2/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 4/3/1, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 4/3, Hrefna Ottósdóttir 1/1/1, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 0/1/0.

Njarðvík
Tynice Martin 20/7/4, Emilie Hesseldal 15/19/5, Ena Viso 14/5/3, Jana Falsdóttir 12/6/1, Anðela Strize 12/2/2, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 3 stig, Krista Gló Magnúsdóttir 2 stig, Hulda María Agnarsdóttir tvö fráköst, A Ásgeirsdóttir eins stoðsending, Kristín Alda Jörgensdóttir tvö fráköst.

Næsti leikur er útileikur gegn Breiðabliki.

  • Deild: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Breiðablik - Þór
  • Staður: Smárinn
  • Dagur: Þriðjudagur 24. október
  • Tími: 19:15