Þriggja ára samningur um Pollamót Samskipa

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir frá markaðs- og samskiptadeild Samskipa og Reimar Helgason, framkvæmdastj…
Þórunn Inga Ingjaldsdóttir frá markaðs- og samskiptadeild Samskipa og Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, við undirritun samnings félaganna í morgun.

Í morgun var undirritaður samningur milli Íþróttafélagsins Þórs og Samskipa um samstarf í kringum Pollamótið sem haldið er í júlí ár hvert.

Pollamót Þórs eiga sér langa sögu sem nær allt aftur til 1987. Samstarf Þórs og Samskipa um Pollamótin hófst með fyrsta samstarfssamningi félaganna árið 2018. Samstarfið hefur verið afar farsælt og hefur Pollamótið borið nafn Samskipa undanfarin fimm ár - stundum nefnt Pollamót Þórs og Samskipa, stundum bara Pollamót Samskipa - og það samstarf hefur nú verið skjalfest til næstu þriggja ára með nýjum samstarfssamningi. Pollamót Samskipa verður því á sínum stað í júlímánuði 2023, 2024 og 2025 - og svo vonandi í mörg ár eftir það.

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, og Þórunn Inga Ingjaldsdóttir frá markaðs- og samskiptadeild Samskipa undirrituðu samninginn í Hamri í morgun. Íþróttafélagið Þór fagnar því mjög að hafa nú staðfest áframhaldandi samstarf við Samskip. Með öflugum bakhjarli er klárt að félagið og þátttakendur á mótunum munu áfram sigla sigrinum heim, með góðum stunðingi frá Samskipum.


Frá undirritun samnings Samskipa og Íþróttafélagsins Þórs í morgun.


Þórunn Inga Ingjaldsdóttir og Reimar Helgason handsala samninginn.