Þrír Þórsarar á fyrsta bikarmóti ársins í hnefaleikum

Stefán Karl Ingvarsson. Myndin er af Facebook-síðu hnefaleikadeildar Þórs.
Stefán Karl Ingvarsson. Myndin er af Facebook-síðu hnefaleikadeildar Þórs.

Hnefaleikadeild átti þrjá keppendur á fyrsta bikarmóti HNÍ á þessu ári, en mótið fór fram síðustu helgina í janúar. Fimm Þórsarar tóku þátt í diplomahnefaleikum daginn eftir bikarmótið.

Á Facebook-síðu hnefaleikadeildarinnar er sagt frá þátttöku okkar fólks. Einnig má sjá yfirlit um allar viðureignir og úrslit á vef Hnefaleikasambandsins - sjá hér.

Sveinn Sigurbjarnarson mætti Teiti Ólafssyni frá HR og laut í lægra haldi.

„Teitur kom Svenna okkar í talsverð vandræði til að byrja með og má segja að árásargirni og ákefð Teits hafi komið Svenna svolítið í opna skjöldu. En eftir því sem á leið náði Svenni betri tökum á að boxa við hann, en hann átti aldrei möguleika á að vinna þessa viðureign. En það verður gaman að sjá hvernig Svenni bregst við næst þegar þeir mætast,“ segir í umfjölluninni.

Elmar Freyr Aðalheiðarson sigraði Rúnar Svavarsson frá HFK.

„Viðureign þeirra var mjög æsileg og spennandi, þar sem þeir skiptust að að lumbra á hvor öðrum. Það var þó Elmar sem var að koma inn betri og fleiri höggunum og hann vann þennan skemmtilega bardaga.“

Ágúst Davíðsson mætti Pétri Stanislav Karlssyni og tapaði þeirri viðureign.

„Ágúst var að keppa sinn annan bardaga í ólympískum hnefaleikum en hann hefur unnið sér inn gullmerki HNÍ fyrir diplómahnefaleika. Ágúst sýndi flotta takta á köflum, en að lokum náði Pétur einfaldlega að gera nóg til að fá sigurinn dæmdan sér í vil. En þetta var mjög góð reynsla fyrir Ágúst og hann á eftir að mæta aftur sprækari en nokkru sinni.“

Keppt var í diplómahnefaleikum á sunnudeginum og þar voru fimm keppendur frá hnefaleikadeild Þórs.

Lilja Torfadóttir beið lægri hlut gegn Sölku Vífilsdóttur úr HR.

„Lilja Torfadóttir mætti Sölku Vífilsdóttir úr HR. Lilja er töluvert lægri en Salka, en hún sýndi að með fimum fótaburði er ýmislegt hægt. Hún stóð sig mjög vel og sýndi ótrúlega flott box. Lilja er með bronsmerki HNÍ og er að safna sér stigum til að fá silfur.“

Valgerður Einarsdóttir mætti Írisi Daðadóttur úr HR.

„Íris hafði verið að keppa á bikarmótinu daginn áður en það var ekki nóg fyrir hana svo hún tók þátt í diplómamótinu líka. Viðureign Valgerðar og Írisar var mjög skemmtileg þar sem þær skiptust á að sækja og verja. Valgerður er með bronsmerki HNÍ og er að safna stigum uppí silfur.“

Stefán Ingvarsson sigraði Val Rúnarsson Bridde frá HFK.

Stefán byrjaði fyrstu lotuna á að sýna leikni í að koma sér undan höggum og svara með gagnhöggum, eitthvað hefur hann þó þreyst á að bakka svona því hann byrjaði á að standa kyrr og skiptast á höggum við Val í næstu lotu. En sem betur fer ákvað hann að fyrri taktíkin væri betri og fór aftur í fyrra horf. Mjög skemmtileg viðureign sem skilaði Stefáni diplóma viðurkenningu HNÍ.

Gunnar H.B. Einarsson keppti við Írisi Daðadóttir frá HR.

„Gunnar var að stíga aftur í hringinn eftir langa pásu og var virkilega flottur. Hans besta vopn, „stungan“ var mjög beitt og ekkert ryð að sjá á henni. Flott viðureign þar sem Gunni reyndi að halda Írisi frá sér með stungunni og Íris að keppast við að komast nær og nýta tækifærið þegar hún komst inn með flottum höggafléttum. Gunnar er með Diplóma viðurkenningu HNÍ og er að safna sér stigum í bronsmerki HNÍ.“

Ívan Reynisson keppti við Tristan Þóroddsson úr HFH.

„Sú viðureign var mjög flott, þar sem Tristan var aðeins stærri en Ívan, þá þurfti Ívan að breyta mjög liprum fótaburði og kænsku til að koma sínum höggum inn og komast hjá höggum andstæðingsins. Ívan er með bronsmerki HNÍ og er að safna sér stigum upp í silfur.“

Helgin var í það heila góð hjá hnefaleikafólki Þórs, sem fær þó ekki langt hlé frá keppni því næsta bikarmót er áformað laugardaginn 11. febrúar.