Þúsund þakkir allir!

Það er margt sem fer í gegnum hugann þegar maður situr á mánudegi og fer yfir helgina. Aldrei hafa fleiri lið eða fleiri þátttakendur tekið þátt og allt gekk vel og ekki minnkaði fjörið þegar við lokuðum mótinu með balli í Boganum þar sem Páll Óskar hélt uppi fjörinu fyrir 1.200 gesti.

Þakklæti er mér efst í huga eftir svona helgi. Þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í mótinu og mættu með góða skapið og skemmtu sér og öllum öðrum sem voru í kringum mótið. Þakklæti til allra fyrirtækja sem styrkja okkur í undirbúningi mótsins, þar fer Samskip fremst í flokki.

Þakklæti til starfsfólks Þórs sem stóðu sig frábærlega þó að vinnudagurinn hafi verið langur. Stærsta klappið á bakið fær samt sjálfboðaliðinn því að án þeirra væri ekkert mót. Ótrúlega margir stóðu hér vaktina í sjálfboðavinnu frá morgni til kvölds og reyndar langt fram á morgun. Þúsund þakkir allir.

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs