Toppslagur í Bestu deildinni

Þór/KA mætir liði Þróttar á útivelli í Bestu deildinni í dag kl. 18. Liðin sitja í 1. og 3. sæti deildarinnar eftir fjórar umferðir.

Segja má að bæði þessi lið hafi komið einhverjum á óvart í fjórðu umferðinni þegar Þór/KA vann Breiðablik og Þróttur tapaði illa fyrir ÍBV í Eyjum. Þór/KA hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjunum, en Þróttur hefur unnið tvo, gert eitt jafntefli og tapað einum. Sigurleikir Þróttar komu gegn FH og Selfossi, en jafnteflið gegn Stjörnunni.

Þessi lið hafa mæst 11 sinnum í efstu deild. Sjö sinnum hefur Þór/KA unnið, einu sinni hafa liðin skilið jöfn, en Þróttur unnið þrisvar og markatalan 32-14 Þór/KA í hag. Þessir þrír sigrar Þróttar komu allir á árunum 2021 og 2022. Ástæðan fyrir því að fjöldi leikja liðanna sín á milli í efstu deild er oddatala er sú að seinni leikur liðanna haustið 2020 fór aldrei fram þar sem mótið var blásið af.

Liðin unnu hvort sinn leik þegar þau mættust í Bestu deildinni í fyrrasumar. Þróttur vann 4-1 fyrir sunnan, en Þór/KA van 1-0 á Þórsvellinum með marki frá Maríu Catharinu Ólafsdóttur Gros. 

Hér má sjá stöðuna í deildinni eftir fjórar umferðir.