Tryggvi Snær og Sandra Sigurðardóttir á meðal efstu

Tryggvi Snær Hlinason (mynd af vef Zaragoza-liðsins á Spáni) og Sandra Sigurðardóttir (mynd Skapta H…
Tryggvi Snær Hlinason (mynd af vef Zaragoza-liðsins á Spáni) og Sandra Sigurðardóttir (mynd Skapta Hallgrímssonar á akureyri.net).

Tryggvi Snær Hlinason, fyrrum leikmaður Þórs í körfuknattleik, og Sandra Sigurðardóttir, fyrrum leikmaður með Þór/KA/KS í knattspyrnu, voru á meðal efstu í kjöri á íþróttamanni ársins 2022.

Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleiksmaður hjá Zaragoza á Spáni, fyrrum leikmaður Þórs, fyrrum íþróttamaður Þórs og íþróttamaður Akureyrar 2017 varð níundi í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins með 62 stig. Kjörinu var lýst í gærkvöld í Hörpunni í Reykjavík að viðstöddu fjölmenni, sem var gleðilegt í sjálfu sér eftir að heimsfaraldur setti strik í reikning þessarar hátíðar undanfarin tvö ár. Tryggvi samdi fyrst við Þór í mars 2015 eftir að hafa æft körfubolta í um það bil ár. Stjarna hans reis hratt og á skömmum tíma varð hann einn besti körfuknattleiksmaður landsins og hefur nú leikið sem atvinnumaður á Spáni frá því á haustdögum 2017.

Sandra Sigurðardóttir, landsliðsmarkvörður og markvörður Íslands- og bikarmeistara Vals í knattspyrnu, var einnig á meðal efstu í kjörinu. Hún varð í sjötta sæti með 136 stig, en Sandra er frá Siglufirði og hóf meistaraflokksferilinn á Akureyri, með Þór/KA/KS. Hún spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn með félaginu þegar hún var á 15. ári. Hún var hjá Þór/KA/KS í fjögur tímabil, 2001-2004, og spilaði samtals 44 meistaraflokksleiki á því tímabili, ásamt leikjum með 2. flokki félagsins.

Í frétt á mbl.is má sjá listann yfir allt það íþróttafólk, þjálfara og lið sem fengu atkvæði í kjöri íþróttafréttamanna.