Úr leik í bikarnum

Þessi frétt er fengin að láni frá www.akureyri.net þar sem Skapti Hallgrímsson skrifar:

Þórsarar duttu í kvöld út úr bikarkeppninni í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninni, þegar þeir töpuðu 2:0 fyrir liði Dalvíkur/Reynis á Dalvíkurvelli.

Úrslitin eru Þórsurum mikil vonbrigði og þau verða að teljast óvænt því Dalvíkingar/Reynismenn leika í fjórðu efstu deild Íslandsmótsins, sem heitir raunar 3. deild, en Þórsarar í þeirri næst efstu, Lengjudeildinni. Sigurinn var hins vegar sanngjarn og lið Dalvíkur/Reynis er komið í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.

Þorlákur þjálfari Þórs gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik og sú hersveit hans sem lék fyrri hálfleikinn átti í erfiðleikum gegn heimamönnum sem börðust eins og ljón, staðráðnir í að sýna stóra frænda í tvo heimana.

Fyrra mark leiksins kom eftir tæpan hálftíma og var slysalegt. Einn heimamanna átti sakleysislega fyrirgjöf og Auðunn Ingi, sem lék í markinu í dag, hefði líklega gripið boltann auðveldlega hefði hann ekki farið í Elmar Þór og breytt um stefnu. Elmar reyndi að spyrna frá en var óheppinn.

Jóhann Örn Sigurjónsson kom Dalvík/Reyni í 2:0 þegar 10 mín. voru eftir þegar hann kom boltanum yfir marklínuna af nokkurra sentimetra færi eftir hornspyrnu.

Lið Dalvíkur/Reynis er í efsta sæti 3. deildar Íslandsmótsins, hefur unnið þrjá fyrstu leikina, og er nú komið í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.

Þórsarar hefðu vissulega getað skorað en léku ekki vel og sköpuðu sjaldan mikla hættu við mark heimamanna. Bjarni Guðjón Brynjólfsson , sem spilaði seinni hálfleikinn, komst næst því að skora en skaut í stöng þegar 20 mínútur voru eftir. Seinni hálfleikurinn var betri en sá fyrri af hálfu Þórsara, þeir voru miklu meira með boltann en það skilaði engu.