Útileikur gegn Leikni í dag

Fjórtándu umferð Lengjudeildarinnar lýkur í dag með þremur leikjum, þar á meðal er heimsókn Þórsara í Breiðholtið þar sem þeir mæta Leikni. Leikur liðanna hefst kl. 14.

Þór og Leiknir eru jöfn að stigum eftir 13 umferðir, bæði með 17 stig, en Leiknir situr sætinu ofar á betri markamun. Fyrir leikina sem nú þegar er lokið í 14. umferðinni voru liðin í 5. og 6. sæti deildarinnar, en 5. sætið er einmitt það sæti sem veitir tækifæri á að fara lengra þegar deildarkeppninni lýkur. Liðin í þremur efstu sætunum eru nokkuð á undan hinum, en fyrir 14. umferðina var Grótta í 4. sætinu með 19 stig, tveimur stigum á undan Leikni og Þór.

Þessi lið hafa mæst 24 sinnum í næstefstu deild Íslandsmótsins. Þórsarar hafa vinninginn, eru með 13 sigra, sjö sinnum hafa liðin skilið jöfn, en Leiknismenn aðeins unnið fjórum sinnum. Þór vann fyrri leik liðanna í deildinni í sumar, 1-0, en liðin mættust einnig í Mjólkurbikarkeppninni í sumar og þar vann Þór einnig. 

Leikur Leiknis og Þórs verður í beinu streymi á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.