Vangaveltur frá formanni Þórs

Nói Björnsson, formaður Þórs.
Nói Björnsson, formaður Þórs.

Ágætu Þórsarar, ég þakka traustið, ég vona svo sannarlega að ég skili félaginu fram á við. Þó að það verði bara eitt lítið hænufet.

Einnig langar mig að þakka Þóru fráfarandi formanni félagsins og öðrum stjórnarliðum og Reimari framkvstj. fyrir ánægjulegt samstarf síðasta starfsár.

Ég ákvað þrátt fyrir ítrekaðar bilanir á síðasta ári og síðustu árum að gefa kost á mér í sæti formanns félagsins. Ég tel mig geta gert gagn með reynslu minni og þekkingu á íþróttamálum og félaginu. Þá treysti ég einnig á að ef bilanir mínar halda áfram þá sé fólk í aðalstjórninni sem taki keflið og haldi starfinu lifandi.

Stjórnin er skipuð að mestu leyti sama fólki og áður. Ég reikna með að verkaskipting breytist lítillega á fyrsta fundi stjórnarinnar en við höldum okkar striki og vinnum áfram að bættum hag allra félagsmanna en það hefur verið meginþema aðalstjórnar síðastliðið starfsár, AÐ GERA FELAGIÐ OKKAR AÐ EINU FÉLAGI. Ég hótaði framkvæmdastjóra því að ég yrði þaulsetinn og stefni að því að fara ekki frá (nema aðrir vilji ólmir grípa gæsina og henda mér út) fyrr en búið er að taka fyrstu skóflustunguna að Íþróttahúsi á svæði félagsins.

Íþróttahús er stóra verkefnið sem Íþróttafélagið Þór þarf að vinna að og fá byggt upp á svæði félagsins til að sameina félagið/félagsmenn og gera okkur sem félag, enn sterkara. Það liggur fyrir að 35% eða um 350-400 iðkenda Þórs þurfa ekki eða koma á svæði félagsins. Það þýðir líka að forráðamenn og systkini koma ekki heldur i Hamar og umhverfi hans. Hvers vegna? Jú, vandamál okkar félags er að umræddur hópur stundar sínar íþróttagreinar utan okkar svæðis, þ.e í íþróttahúsum víðs vegar um bæinn. Það er óþolandi fyrir okkur sem félag að búa við þessa aðstöðu. Að þessu máli verður unnið ötullega, við verðum að fá íþróttahús og eru bæjaryfirvöld jákvæð varðandi þá sýn okkar enda um að ræða kosningaloforð þeirra flokka sem að meirihlutasamstarfinu standa.

Við þurfum að vanda til verka og vera þolinmóð þar sem að slík bygging þarf að vera hugsuð til næstu 50-70 ára og til að hýsa sem mest af okkar innanhússgreinum.

Einnig erum við að vinna að því ásamt bænum að setja gervigrasvöll á æfingasvæðið okkar Ásnum, austast á svæðinu. Vonandi verður það verkefni að veruleika á næsta ári eða í síðasta lagi 2025. Fjármunir fyrir það verkefni er þegar komnir inn í fjárhagsáætlun bæjarins árin 2024 og 2025.

Samningur bæjarins við KA gefur okkur byr í seglin varðandi væntanlega uppbyggingu á okkar svæði. Þar erum við að horfa á að fá nýtt gervigras og íþróttahús með félagsaðstöðu í tengibyggingu. Þar sem að félagsmenn geta lagt hönd á plóg og félagið fengið greitt fyrir vinnuframlag og útlagðan kostnað félagsins sbr. samning KA. Síðan að sjálfsögðu verður kallað eftir fullnustu á eldri samningi félagsins við bæinn er varðar lýsingu á aðalvöllinn okkar og þak á stúkuna svo eitthvað sé nefnt.

Vonandi getum við haldið félagsfund á næstunni og upplýst félagsmenn um gang mála varðandi viðræður okkar við bæjaryfirvöld og framtíðarsýn okkar á félagssvæðinu.

Mig langar mikið til þess að virkja hinn almenna félagsmann og óska hér með eftir því að allir félagar í íþróttafélaginu Þór verði duglegir að koma með ábendingar um starfið og bendi jafnframt á úrlausnir á því sem betur mætti fara.

Við getum alltaf gert gott betra.

Einn liður af mörgum í þessa átt gæti verið breyting á uppsetningu aðalfunda deilda félagsins, gefa þeim meiri tíma. Þar á að vera vettvangur skoðanaskipta og félagsmenn þurfa fyrir vikið að gefa aðalfundum meiri gaum, mæta þar og tjá sig.

Það er gríðarlegur mannauður í félaginu og allir að reyna að gera sitt besta, stundum gengur vel innan vallar, sbr. t.d. kvennaliðið okkar i körfunni, en stundum er gangurinn ekki eins utan vallar, sbr. niðurstöður reikninga félagsins. Auðvitað er best ef jafnvægis er gætt og við vöndum til verka á báðum vígstöðvum. Við verðum að standa þannig að málum að reksturinn verði alltaf sjálfbær.

Á síðustu árum hafa kröfur iðkenda aukist verulega og kostnaður fyrir vikið orðið meiri og jafnvel farið fram úr öllu sem eðlilegt getur talist.

Mig langar að benda iðkendum almennt á það að það er ekkert sjálfgefið að við eigum í okkar röðum fólk sem er tilbúið að fórna sínum frítíma í að gera ykkur kleift að stunda ykkar íþróttir og fá jafnvel einhverja umbun fyrir.

Við skulum því bera virðingu fyrir vinnu sjálfboðaliðans, hann er félaginu allt.

Við höfum rætt í aðalstjórn hvert er markmið félagsins eða á að vera markmið okkar félags. Ætlum við að gleypa allan heiminn eða einblína á uppeldisstarfið og gefa það út. Við þurfum að hugsa um þetta og einnig að þora að ræða þetta innan okkar raða.

Það liggur fyrir ef við horfum á reikninga, t.d. Bestudeildarfélaga að við höfum ekki fjármagn í þetta bull sem er við lýði. Sama má segja um hinar boltagreinarnar sem við stundum.

Við eigum alltaf eftir að koma fram með lið sem fer á milli deilda þó svo að við högum okkar vinnu með þessum hætti. Með ábyrgð og skynsemi að leiðarljósi. Látum ekki misvitra spjátrunga sem aldrei hafa komið að rekstri íþróttafélaga eða keppnisliða draga okkur á asnaeyrunum í umræðunni og ákvarðanatökum. Íþróttafélag eins og okkar er rekið af sjálfboðaliðum þar sem rekstrarfé fæst með oft og tíðum þrotlausri vinnu og dugnaði sjálfboðaliðans.

Ræðum málin, þorum að ræða málin, hvernig og hvar viljum við sjá okkur í framtíðinni.

Ég get tæplega tjáð mig á heimasíðu félagsins án þess að taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram vegna vinnubragða ÍTF varðandi kvennaknattspyrnuna. Ég hef áður gagnrýnt ÍTF sbr grein sem birtist á akureyri.net og fotbolti.net árið 2022. Það er orðin gömul og þreytt lumma að segja þannig frá að kvennaknattspyrna gefi af sér litlar tekjur. Ég hef af því ágæta reynslu persónulega að ef þú leggur þig fram þá er ýmislegt hægt til að auka tekjur til kvennaknattspyrnunnar. Það eru margir aðilar sem sjá hag sinn í því að styðja við kvennaboltann. ÍTF þarf bara að leggja sig fram og selja hugmyndina "kvennaknattspyrna", ekki hjóla bara í gamla karlrembuhjólfarinu.

Að síðustu langar mig til að minnast á grein sem Sammi Árna skrifaði um daginn um bróður sinn hann Adda Gunn og mikið hefur verið fjallað um og full þörf á. Ég reikna með að flest allir ef ekki allir séu búnir að lesa greinina.

Mér fannst greinin hrikalega sorgleg, við erum líka mörg í þessu félagi sem þekkjum til þeirra bræðra enda aldir upp hjá okkur, í kringum okkur og hafa einnig starfað hjá okkur. Einnig eru foreldrar þeirra úr okkar röðum.

Við sem félag, ekki frekar en önnur félög, getum ekki leyft okkur að líta fram hjá þessum skrifum. Við verðum að rýna okkar starf í þessu ljósi, þjálfarastarfið er vandmeðfarið og foreldrastarfið ekki síður. Flestir foreldrar koma að starfinu vegna barna sinna en það sem við verðum að gæta að eru vinnubrögð okkar, við komum að starfinu eins og áður sagði sem foreldrar en það þýðir samt ekki nein forréttindi til handa okkar börnum. Einnig verðum við að gæta þess að þegar við erum búin að taka að okkur trúnaðarstörf hjá félaginu þá erum við búin að samþykkja að vinna að heilindum fyrir alla iðkendur flokksins/félagsins, ekki bara okkar börn.

Látum þjalfarana sjá um sitt verkefni sem þeir eru ráðnir til, sköpum þeim þann vinnufrið og umhverfi sem þeir þurfa. Þjálfarinn er alltaf með það markmið að gera sitt besta fyrir sitt lið. Ég veit nokkur dæmi þess að foreldrar innan okkar raða hafa haft afskipti af því í hvaða liðum börnin þeirra spila, við eigum að hafa meiri þroska til að bera en að stappa í þeim pytti.

Heil-inn er verkefni um hugarfarsþjálfun sem félagið hefur verið að leggja áherslu á undanfarið ár. Hugarþjálfun er mikilvæg fyrir íþróttafólk. Við teljum mikilvægt að fræða þjálfara hvernig eigi að styrkja þá hugarfarslegu þætti sem eru grundvöllur árangurs og ánægju í íþróttum. Rannsóknir í íþróttasálfræði hafa sýnt að hugarþjálfun getur haft áhrif á hugræna færni, kvíða, sjálfstraust og frammistöðu.

Vonandi náum við að vinna gagnleg skilaboð upp úr grein Samma handa okkar fólki sem er að vinna annars frábært starf í öllum deildum og ráðum félagsins.

Hamar er alltaf opinn öllum til skrafs og ráðagerða og ekki síður að kíkja við og fá sér kaffibolla.

Takk fyrir, áfram Þór alltaf alls staðar!

Nói Björnsson, formaður Þórs