Verðskuldaður sigur Þórs/KA á Blikum

Sandra María Jessen kom Þór/KA í 2-0 eftir sendingu frá Margréti Árnadóttur. Mynd: Skapti Hallgrímss…
Sandra María Jessen kom Þór/KA í 2-0 eftir sendingu frá Margréti Árnadóttur. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net

Þór/KA vann Breiðablik í opnum og fjörugum markaleik í 2. umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Bríet Fjóla Bjarnadóttir kom í fyrsta skipti við sögu í leik í efstu deild þegar hún kom inn á sem varamaður, en hún er fædd 2010.

Þrátt fyrir kröftuga byrjun og opin færi var aðeins eitt mark skorað í fyrri hálfleiknum og það kom á loka mínútu hans þegar Karen María Sigurgeirsdóttir átti fallegan skalla eftir fyrirgjöf frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Þór/KA fylgdi þessu marki svo eftir strax eftir leikhléið þegar Sandra María Jessen skoraði eftir fyrirgjöf Margrétar Árnadóttur.

Gestirnir náðu að minnka muninn úr vítaspyrnu skömmu síðar og jafna leikinn þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Jafntefli hefðu raunar verið mjög ósanngjörn úrslit miðað við gang leiksins og fjölda færa, en það er ekki alltaf spurt að því.

Þrátt fyrir að stutt væri eftir gáfust okkar stelpur ekki upp heldur héldu áfram að sækja og vildu sigur - og fengu hann. Á fyrstu mínútu uppbótartíma skoraði Una Móeiður Hlynsdóttir af stuttu færi eftir sendingu frá Amalíu Árnadóttur.

  • 1-0 - Karen María Sigurgeirsdóttir (45’). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 2-0 - Sandra María Jessen (49’). Stoðsending: Margrét Árnadóttir.
  • 2-1 - Agla María Albertsdóttir (54’)(v).
  • 2-2 - Agla María Albertsdóttir (77’)
  • 3-2 - Una Móeiður Hlynsdóttir (90+1’)

Með sigrinum færðist Þór/KA upp um eitt sæti og situr nú í 5. Sætinu með 29 stig úr 20 leikjum. Breiðablik var eina liðið sem tölfræðilega hefði getað náð Val að stigum, en hefði þá þurft að sigra í gær. Úrslitin þýddu því að Valur er Íslandsmeistari þriðja árið í röð.

Keppnin um 2. sætið í deildinni, sem gefur þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildar Evrópu, varð um leið meira spennandi og eiga öll liðin möguleika á því sæti. Breiðablik og Þróttur eru með 34 stig, Stjarnan 32 (á leik inni gegn Val í dag), Þór/KA með 29 og FH með 28.

Þór/KA mætir Þrótti á útivelli sunnudaginn 17. september kl. 14. Að þeim leik loknum verður hlé á deildinni vegna landsleikja, en eftir það á Þór/KA heimaleik gegn Stjörnunni (30.09.) og útileik gegn FH (06.10.)

Höfðingleg gjöf

Í leikhléi tók Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, við ávísun að upphæð 750.000 krónur úr Minningarsjóði Guðmundar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi formanns Þórs, en það voru synir Guðmundar, þeir Bjarni Freyr og Einar Már, sem afhentu styrkinn. Virkilega fallegt og gott framtak hjá þeim bræðrum og Minningarsjóðnum.

Þór/KA þakkar framlag Minningarsjóðsins af heilum hug.


Dóra Sif Sigtryggsdóttir, Bjarni Freyr Guðmundsson og Einar Már Guðmundsson.  Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.