Vetraræfingar fótboltans hefjast á mánudag

Mánudaginn 16.október fer yngri flokka starfið í fótboltanum aftur af stað eftir tveggja vikna haustfrí.

Æfingar hefjast samkvæmt vetrartöflu hjá öllum yngri flokkum og verða æfingar settar inn á Sportabler um helgina.

Þjálfararáðningar fyrir komandi tímabil eru vel á veg komnar og munu þjálfarar kynna sín teymi fyrir iðkendum á fyrstu æfingu hvers flokks á mánudag. Í kjölfarið fá foreldrar upplýsingar sendar á Sportabler auk þess sem þessar upplýsingar verða uppfærðar á heimasíðu Þórs. Í kringum mánaðarmót október-nóvember verða svo boðaðir foreldrafundir í öllum flokkum og á sama tíma munu styrktaræfingar bætast við æfingaáætlun hjá 5.flokki og eldri.

Hér má nálgast allar lykilupplýsingar um starfið og hér má nálgast allar upplýsingar um skráningu.

 

Mikilvægt er að allir foreldrar/aðstandendur gangi frá skráningu og kynni sér Sportabler samskiptaforritið sem notað er fyrir allar tilkynningar og upplýsingar til foreldra.

Iðkendum í 6. og 7.flokki stendur til boða að koma með rútu á æfingar úr Giljaskóla, Síðuskóla og Oddeyrarskóla á mánudögum og miðvikudögum líkt og undanfarin ár. Rútuaksturinn er niðurgreiddur að hluta af Akureyrarbæ og styrktur af Arion banka sem gerir iðkendum kleift að nýta þjónustuna gjaldfrjálst.  Nánari upplýsingar um rútuna á tenglinum hér að ofan.