Vilt þú vera ómissandi hluti af uppbyggingastarfinu?

Hefur þú áhuga á að vera ómissandi hluti af uppbyggingastarfi Þórs í fótbolta í sumar?

Mikil gróska hefur verið í barna- og unglingastarfi Þórs á undanförnum árum og sumarið 2023 verður sögulegt í ljósi þess að aldrei hefur Þór teflt fram jafnmörgum liðum í Íslandsmótum yngri flokka og aldrei hafa fleiri fótboltaleikir farið fram á Þórssvæðinu og eru á dagskrá í ár.

Frá maíbyrjun og fram í október munu fara fram í kringum 200 leikir á Þórssvæðinu og enginn þeirra mun fara fram án dómara. Dómgæslu í yngri flokkum Þórs hefur verið sinnt af harðduglegum sjálfboðaliðum og óskum við eftir því að stækka þann hóp í sumar til að allir þessir leikir geti farið fram.

Ýmis tækifæri í boði

Í því að sinna dómgæslu yngri flokka felast ýmis tækifæri. Hafir þú áhuga á að fara lengra í dómgæslu erum við Þórsarar svo heppin að eiga yfirmann dómaramála hjá KSÍ í okkar félagi, Þórodd Hjaltalín Jr. sem er alltaf tilbúinn að aðstoða þá sem hafa áhuga á að leggja fyrir sig dómgæslu að atvinnu.

Þórsarar eiga í dag öfluga dómara sem eru að dæma á öllum stigum í deildarkeppni en kominn er tími á að fjölga í þeim hópi.

Einnig er þetta gott tækifæri til að vera virkur þátttakandi í uppbyggingastarfinu þar sem að með því að dæma leikina nær viðkomandi að fylgjast vel með okkar upprennandi Þórsurum. Þá er auðvitað um góða og heilbrigða líkamsrækt að ræða.

Um er að ræða dómgæslu leikja allt frá 2.flokki og niður í 5.flokk og því um fjölbreytt getustig að ræða. Ekki er gerð krafa á dómarapróf til að taka þátt í dómgæslu yngri flokka en dómaranámskeið eru haldin reglulega fyrir þá aðila sem vilja bæta við sig þekkingu og dæma á efri stigum.

Hafir þú áhuga á slást með í dómarahópinn máttu láta vita af þér til yfirþjálfara yngri flokka, Arnar Geir Halldórsson, arnar@thorsport.is eða með því að sækja um aðgang að Facebook dómarahópnum okkar hér. 

Áfram Þór!