VÍS bikar karla: Þór-Stjarnan

VÍS bikar karla: Þór-Stjarnan

Á morgun sunnudag tekur Þór á móti Stjörnunni í 32 liða úrslitum VÍS bikar karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í íþróttahöllinni og hefst klukkan 15:00.

Verkefni Þórs að þessu sinni í bikarnum er af stærri gerðinni en Stjarnan eru ríkjandi bikarmeistarar. Stjarnan er með feikna gott lið í ár eins og mörg undanfarin ár. Því má segja með sanni að Þór hefði ekki geta fengið sterkari andstæðing en Stjarnan hefur leikið tvo leiki í deildinni en liðið sigraði Íslandsmeistarana í fyrstu umferð en í annarri umferð kom tap gegn Keflavík.

Strákarnir okkar sitja á botni fyrstu deildar eftir fjórar umferðir án stiga. En hvernig sem staða liða í deildum er hefur engin áhrif á bikarleiki. Eitt tap og gamanið er búið.

Í lið Stjörnunnar hittum við fyrir fyrrum fyrirliða Þórs, Júlíus Orra Ágústsson sem gekk í raðir liðsins fyrir yfirstandandi tímabil og verður sérlega gaman að fá kappann í heimsókn.

Þótt róðurinn verði þungur fyrir okkar lið þá munu leikmenn Þórs leggja allt í sölurnar og reyna af fremsta megni að gefa gestum góðan leik. Gestirnir eru vissulega mun sigurstranglegri og fæstir myndu leggja undir og tippa á okkar menn.

En eins og allir vita þá er körfubolti skemmtileg íþrótt og gaman að horfa á og styðja sitt lið til sigurs. Það er nákvæmlega það sem við stuðningsmenn Þórs ætlum að gera á morgun.

Kynnt verður upp í grillinu svo fólk getur mætt tímanlega og fengið sér hamborgara og drykk fyrir leik.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinu streymi á ÞórTV.

Leikurinn hefst klukkan 15:00

Áfram Þór alltaf, alls staðar