Fréttir af yngri flokkum í sumarfríi

Nú er komið að stuttu sumarfríi hjá yngri flokkum í fótbolta áður en lokaátök sumarsins hefjast fljótlega í ágúst en ekki verður æft dagana í kringum Verslunarmannahelgi.

Mikið hefur verið um að vera hjá yngri flokkunum að undanförnu og hér að neðan má sjá brot af því sem okkar fólk hefur verið að sýsla út um allt land frá sumarbyrjun.

8.flokkur

Mikil gróska hefur verið í starfi 8.flokks í sumar og fór skráður iðkendafjöldi nýverið yfir 100 iðkendur. Þrettán lið tóku þátt í Strandarmóti á Dalvík á dögunum þar sem fjölmargir iðkendur prófuðu að keppa í fyrsta sinn og óhætt að segja að glæsileg tilþrif hafi litið dagsins ljós.

Magnús Eggertsson hefur haldið utan um stjórnartaumana í 8.flokki í sumar líkt og undanfarin ár.

Gæti verið mynd af 7 manns, people standing og útivist

7.flokkur kvenna

Stelpurnar í 7.flokki hafa haft í nógu að snúast í sumar og hafa fjölmennt á þrjú mót. Hápunkturinn var Símamótið í Kópavogi sem fram fór dagana 8.-10.júlí síðastliðinn þar sem Þór tefldi fram fjórum liðum og unnu tvö af þeim til gullverðlauna á mótinu.

7.flokkur tók einnig þátt í Strandarmóti og Íslandsbankamóti auk þess að taka þátt í Húsavíkurmóti í lok sumars.

Garðar Marvin Hafsteinsson, Hulda Björg Hannesdóttir og Alma Sól Valdimarsdóttir sjá um þjálfun 7.flokks kvenna.Engin lýsing til

7.flokkur karla

Hápunktur sumarsins hjá strákunum í 7.flokki á hverju ári er Norðurálsmótið á Akranesi sem fram fór um miðjan júnímánuð. Þar tóku sex lið þátt fyrir hönd Þórs og náðu góðum árangri þrátt fyrir alls konar veðurfar og krefjandi aðstæður þar sem vindurinn var í stóru hlutverki.

7.flokkur tók einnig þátt í Strandarmóti og mun taka þátt í Króksmóti og Húsavíkurmóti í ágúst.

Arnar Geir Halldórsson, Aðalgeir Axelsson og Sigurður Kári Ingason sjá um þjálfun 7.flokks karla.

6.flokkur kvenna

6.flokkur er fjölmennasti kvennaflokkur félagsins um þessar mundir og fjölmenntu þær á Símamótið líkt og 7.flokkur. Sjö Þórslið tóku þátt í mótinu en aldrei áður hefur Þór átt jafn mörg lið í einum flokki á Símamótinu. Stelpurnar voru félaginu til sóma auk þess sem þrjú af liðunum sjö unnu til verðlauna. Tvö lið unnu bronsverðlaun og eitt lið silfurverðlaun.

6.flokkur tók einnig þátt í Króksmóti og mun taka þátt í Húsavíkurmóti í ágúst.

Andri Hjörvar Albertsson, Sara Mjöll Jóhannsdóttir og Andrea Mist Pálsdóttir sjá um þjálfun 6.flokks kvenna.

6.flokkur karla

Strákarnir í 6.flokki fá að skoða Suðurlandið þar sem yngra árið tók þátt í Setmóti á Selfossi í byrjun júní áður en eldra árið hélt til Vestmannaeyja á hið goðsagnakennda Orkumót. Bæði mótin fóru fram við frábærar aðstæður en nánar má lesa um Eyjamótin hér.

6.flokkur mun einnig taka þátt í Króksmóti og Húsavíkurmóti í ágúst.

Garðar Marvin Hafsteinsson, Jónas L. Sigursteinsson og Ingþór Bjarki Brynjólfsson sjá um þjálfun 6.flokks karla.

5.flokkur kvenna

Í 5.flokki er Íslandsmótið í fyrirrúmi þar sem Þór teflir fram þremur liðum sem leika í A-deild. Stelpurnar hafa leikið samtals sextán leiki í Íslandsmóti og hafa fimm leikir unnist, tvö jafntefli og níu töp en nóg er eftir af Íslandsmótinu.

Að auki tóku stelpurnar þátt í TM-mótinu í Vestmannaeyjum sem lesa má nánar um hér.

Margrét Árnadóttir, Hulda Björg Hannesdóttir og Alma Sól Valdimarsdóttir sjá um þjálfun 5.flokks kvenna.

5.flokkur karla

5.flokkur er fjölmennasti karlaflokkurinn í félaginu um þessar mundir. Þór teflir fram alls fimm liðum í Íslandsmóti 5.flokks karla en A og B-lið leika í A-deild með liðum á höfuðborgarsvæðinu á meðan A2, B2 og C-lið leika í E-riðli Íslandsmótsins (Norður- og Austurlandsriðill). Af 44 leikjum 5.flokks karla hafa 20 unnist, 22 tapast og tveimur leikjum lokið með jafntefli.

Einnig tóku strákarnir þátt í N1-mótinu og munu taka þátt í ÓB-móti á Selfossi í ágúst.

Steinar Logi Rúnarsson, Birkir Hermann Björgvinsson, Brynjólfur Sveinsson og Nikola Kristinn Stojanovic sjá um þjálfun 5.flokks karla.

4.flokkur kvenna

4.flokkur tekur þátt í Íslandsmóti og bikarkeppni og hefur gengið erfiðlega hjá stelpunum til þessa. Flokkurinn telur 25 leikmenn sem hafa haldið úti tveimur liðum í sumar og af átján leikjum sem spilaðir hafa verið hefur aðeins einn unnist, einn endað með jafntefli en aðrir tapast. Stelpurnar því í harðri fallbaráttu en eiga enn möguleika á að halda sæti sínu í A-deild.

4.flokkur tók þátt í Rey Cup á dögunum og gekk báðum liðum 4.flokks kvenna vel.

Andri Hjörvar Albertsson, Hulda Björg Hannesdóttir og Sandra María Jessen sjá um þjálfun 4.flokks kvenna.

4.flokkur karla

Strákarnir taka þátt í sömu keppnum og stelpurnar og er gengið hreint út sagt magnað til þessa. Þór er með fjögur lið í Íslandsmóti og af 33 leikjum hafa 23 leikir unnist, sex tapast og fjórum lyktað með jafntefli. A og D-lið flokksins tróna á toppi A-deildar og er A-liðið enn taplaust í sumar. Eru strákarnir einnig komnir í undanúrslit bikarkeppninnar.

4.flokkur tók þátt í Rey Cup á dögunum þar sem öllum þremur liðum 4.flokks karla gekk vel.

Garðar Marvin Hafsteinsson, Ármann Pétur Ævarsson og Aðalgeir Axelsson sjá um þjálfun 4.flokks karla.

3.flokkur kvenna

Samstarf Þórs og KA í kvennaboltanum hefst í 3.flokki og óhætt er að segja að samstarfið blómstri þar, þar sem Þór/KA teflir fram þremur 11 manna liðum í Íslandsmóti. Tvö A-lið og eitt B-lið.

Leikið er eftir nýju fyrirkomulagi í Íslandsmóti 3.flokks þar sem mótinu er skipt upp í þrjár lotur yfir sumarið og geta liðin unnið sig upp og niður um deildir í hverri lotu. Nú er tveimur lotum lokið og er A1 enn taplausar í Íslandsmótinu í sumar; hafa sigrað A-deildina í báðum lotunum til þessa.

A2 fóru taplausar í gegnum lotu 1 og unnu þar C-deild. Þær stóðu sig vel í B-deild í lotu 2 og enduðu í 3.sæti. B-liðið hefur sömuleiðis átt góðu gengi að fagna og eru í 2.sæti A-deildar í B-liðum. Þá er Þór/KA komið í undanúrslit bikarkeppninnar.

Í byrjun sumars tóku stelpurnar þátt í Barcelona Cup sem lesa má nánar um hér.

Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson og Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfa 3.flokk kvenna.

3.flokkur karla

Strákunum hefur einnig gengið vel í nýja fyrirkomulaginu en þar hóf Þór keppni í B-deild. Í lotu 1 höfnuðu strákarnir í 4.sæti. Annarri lotu lauk nú nýverið og þar tryggðu strákarnir sér sæti í A-deild í lotu 3 og munu því mæta bestu liðum landsins það sem eftir lifir sumars. B-liðið er í 5.sæti af 8-liðum B-deildar þegar mótið er hálfnað.

Eftir að A-lið 3.flokks vann sér sæti í A-deild eru nú öll Þórslið yngri flokkanna að spila í efstu deild Íslandsmótsins í sínum aldursflokki.

Á vordögum tóku strákarnir þátt í Barcelona Cup sem lesa má nánar um hér.

Andri Hjörvar Albertsson og Kristján Sigurólason þjálfa 3.flokk karla.

Tvenn bronsverðlaun og breytilegt veður í Barcelona

2.flokkur kvenna

2.flokkur kvenna var endurvakinn í sumar og þar bætist Völsungur við í samstarf Þórs og KA. Stelpurnar leika í B-deild og eru í 3.sæti deildarinnar þegar mótið er rúmlega hálfnað.

Þær féllu nýverið úr leik í bikarkeppninni eftir 4-3 tap gegn Breiðabliki í Kópavogi.

Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson og Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfa 2.flokk kvenna.

2.flokkur karla

2.flokkur karla leikur í A-deild og sitja í 7.sæti deildarinnar þegar mótið er rétt rúmlega hálfnað en 10 lið leika í A-deild 2.flokks.

Strákarnir féllu úr leik í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar á dögunum eftir 3-1 tap gegn ÍA á Akranesi.

Fjórir leikmenn af 2.flokks aldri hafa komið við sögu með meistaraflokki í Lengjudeildinni í sumar og spilað þar af leiðandi minna með 2.flokki en alla jafna eru sjö leikmenn úr 2.flokki í æfingahópi meistaraflokks.

Páll Viðar Gíslason og Arnar Geir Halldórsson þjálfa 2.flokk karla.

Með því að smella hér má skoða nánara yfirlit yfir framgöngu Þórsliðanna í Íslandsmótum á vef KSÍ. 

Sumarstarfið

Á sumrin er æft alla virka daga á Þórssvæðinu og eru æfingar í gangi á svæðinu frá 9:00 á morgnana til 20:00 á kvöldin. Við það bætast leikir í Íslandsmóti sem eru jafnt virka daga sem og um helgar.

Auk hefðbundinna æfinga er boðið upp á sérstakar tækniæfingar fyrir ákveðna aldurshópa og hefur hinn þrautreyndi Jónas L. Sigursteinsson umsjón með þeim æfingum.

Til viðbótar við þjálfarana sem nefndir hafa verið hér að ofan bætast ungir aðstoðarþjálfarar við þjálfarateymin á sumrin. Er þar um að ræða ungmenni sem koma úr yngri flokka starfinu og eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Eru þau ráðin í sumarvinnu hjá Akureyrarbæ og vinna hjá Þór.

Þetta er mikilvægur liður fyrir okkur í að finna nýja unga og upprennandi þjálfara í yngri flokka starfið í nánustu framtíð.

Aðstöðumál í ólestri

Eins og sjá má er starfið umfangsmikið og hefur umfangið vaxið verulega á undanförnum árum. Það skýrist af auknum iðkendafjölda og þess að Íslandsmót yngri flokka hafa verið að lengjast í báða enda, að vori og hausti.

Á meðan hefur aðstaða til knattspyrnuiðkunar á Þórssvæðinu versnað til mikilla muna á undanförnum árum og er staðan orðin ansi svört.

Grassvæði félagsins þola ekki álagið og er svo komið að ekkert félag á Íslandi sem hefur yfir 200 iðkendur í yngri flokkum býr við lakari æfinga- og keppnisaðstöðu en Þór. Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar hefur kallað eftir umbótum á svæðinu og ljóst er að knattspyrnan í Þór getur ekki beðið lengur eftir gervigrasvelli á svæðið.

Á síðustu tveimur áratugum hefur knattspyrnan í Þór gefið eftir sín bestu grassvæði til mannvirkja Akureyrarbæjar. Um það voru gerðir samningar en ekkert af þeim hluta samningsins sem átti að gagnast knattspyrnunni í Þór í staðinn hefur verið efnt. Vegur þar lang þyngst að gervigrasið sem átti að leggja í síðasta lagi árið 2017 sé enn ekki komið. Félagið verður að fara að leita réttar síns í þessu máli og það ekki seinna en strax enda eru þessar vanefndir að bitna verulega á öllu starfi knattspyrnudeildar í dag og hafa gert undanfarin ár.

Fyrir hönd barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Þórs

Arnar Geir, yfirþjálfari yngri flokka